Afhendingarstaður þjónustu Farice settur upp á Akureyri

Farice mun snemma á árinu 2024 bæta Akureyri við sem nýjum afhendingarstað þjónustu fyrir útlandasambönd fjarskiptafyrirtækja.  Farice á og rekur þrjá fjarskiptasæstrengi sem tengja Ísland við útlönd, FARICE-1, DANICE og ÍRIS.  Fjarskiptafyrirtæki tengjast við netkerfi Farice í dag í Reykjavík og á Reykjanesi og þaðan fer netumferð um sæstrengi félagsins til Evrópu.

Með því að setja upp afhendingarstað þjónustu Farice á Akureyri verður mögulegt fyrir fjarskiptafyrirtæki sem hafa netmiðju á Akureyri að beina netumferð sinni til útlanda framhjá Reykjavík og Reykjanesi.  Fjölgun tengimöguleika fjarskiptafyrirtækja við netkerfi Farice eykur viðnámsþrótt netkerfisins gagnvart áföllum og styrkir þannig fjarskiptaöryggi Íslands.

Farice hefur í nokkurn tíma horft til Akureyrar sem heppilegs staðarvals fyrir nýjan afhendingarstað þjónustu þar sem svæðið er landfræðilega aðskilið frá öðrum afhendingarstöðum Farice og möguleiki er á beinum tengingum við sæstrengi Farice. Einnig hefur átt sér stað öflug uppbygging innviða á Akureyri með opnun á nýju gagnaveri ásamt styrkingu landsdekkandi gagnaflutningskerfi fjarskiptafyrirtækja, sem gerir afhendingu þjónustu Farice á Akureyri mögulega.

Nánari upplýsingar veitir:

Þorvarður Sveinsson framkvæmdarstjóri Farice í síma 585 9700 eða gegnum netfangið [email protected]