Áhöfn kapalskips bandaríska strengjaframleiðandans SubCom hóf í gær lagningu á nýja fjarskiptastrengnum ÍRIS frá Hafnarvík við Þorlákshöfn áleiðis til Galway á Írlandi. ÍRIS er búinn sex ljósleiðarapörum og mun hafa flutningsgetu uppá 132Tb/s. Með tilkomu strengsins mun fjarskiptaöryggi Íslands við Bretland og meginland Evrópu stóraukast eins og stjórnvöld hafa lagt áherslu á að koma í framkvæmd.

Í tilefni af upphafi lagningar Írisar fagnaði Farice tímamótunum með stuttri kynningu í Hafinu bláa við Eyrarbakkaveg, þaðan sem gott útsýni er til landtökusvæðisins. Viðstaddir kynninguna voru m.a. forsætisráðherra, ráðherrar fjarskipta og innviða auk fulltrúa frá sveitafélaginu Ölfusi, SubCom, innlendum fyrirtækjum og samtökum, sem komið hafa að framgangi verkefnisins með einhverjum hætti, og fjölmargir aðrir aðilar í atvinnulífinu, sem eiga ríkra hagsmuna að gæta af enn öflugri og öruggari fjarskiptatengingum við Bretlandseyjar og meginland Evrópu.

Þriðji sæstrengur Farice

Sæstrengurinn ÍRIS er u.þ.b. 1.780 km langur og kemur á land í Galway á Írlandi með framlengingu áfram til Dublin. Strengurinn er sá þriðji í eigu og rekstri Farice milli Íslands og Evrópu. Núverandi strengir eru Farice-1 (2003), sem liggur milli Seyðisfjarðar og Skotlands með aukagrein til  Færeyja, og Danice (2009) sem liggur frá vesturströnd Jótlands til suðurstrandar Íslands í Landeyjum. Með Írisi eykst fjarskiptaöryggi Íslands tífalt úr því að fara úr tveimur strengjum í þrjá, og er markmið Farice að framvegis verði ávallt þrír virkir strengir í rekstri sem tengja Ísland við Evrópu til að tryggja fullnægjandi fjarskipti í samræmi við þarfir og kröfur samfélagsins og fjarskiptastefnu sem samþykkt var af Alþingi sumarið 2019.

Vandað við val á leiðum og landtökustöðum

Farice hefur unnið að undirbúningi lagningar Írisar frá árinu 2019 þar sem öryggi ásamt hagkvæmni í leiðavali og vali á lendingarstöðum var haft í fyrirrúmi.  Lending strengsins í Hafnarvík varð fyrir valinu þar sem náttúrulegar aðstæður eru góðar til lendingar á sæstreng, lendingin er nærri fjölbreyttum ljósleiðaratengingum og stutt er til mikilvægra nettengistaða á Íslandi. Þá er ennfremur mikilvægt, m.t.t. öryggis og dreifingar áhættu að strengirnir þrír séu í góðri fjarlægð hver frá öðrum. Hönnunarmarkmið með Írisi er að strengurinn verði plægður 1,5 m niður undir yfirborð sjávarbotnsins, alls staðar þar sem dýpi er 1.500 metrar eða minna, en dýpst fer strengurinn á um 2.400 metra dýpi. Eftir að lagningu Írisar lýkur síðar í sumar hefjast prófanir á kerfinu sem standa munu fram eftir hausti. Gert er ráð fyrir að Íris verði formlega tekin í notkun í árlok eða upphafi næsta árs.

 

 

Fréttatilkynning frá Farice 24. maí 2022.

 

Nánari upplýsingar veitir Þorvarður Sveinsson, forstjóri Farice, í síma 669 9222.

Netfang: [email protected]