Viðtal í Morgunblaðinu við starfsmann Farice upplýsir margt um stöðu ÍRIS verkefnis og önnur tengd mál.

Ljóst er að ÍRIS, sem liggur frá Írlandi til Þorlákshafnar
kemst ekki í gagnið fyrr
en 1. mars, tveimur mánuðum á eftir
áætlun. Ástæða þess er aðallega sú að
tafir hafa orðið á afhendingu nauðsynlegs
endabúnaðar. Yfirmaður sölu
og þróunar hjá Farice telur að tilkoma
strengsins og hátt orkuverð á
Írlandi geti skapað tækifæri fyrir
írsku gagnaverin til stækkunar á Íslandi.
Hann segir að brátt þurfi að
huga að næsta streng til Evrópu þar
sem FARICE-1 komist á aldur undir
lok áratugarins.
Sæstrengurinn ÍRIS var lagður á
sjávarbotninn í sumar. Því verki lauk
í byrjun ágúst þegar komið var samband
á milli kapalhúsanna í Þorlákshöfn
og Galway á Írlandi. Örn Orrason,
yfirmaður sölu og þróunar hjá
Farice ehf., segir að framleiðandi
strengsins, SubCom, vinni að prófunum
í samvinnu við Farice sem annist
viðtökuprófanir.

Leyst úr landtengingum
Landtengingum er ekki lokið.
Ljósleiðari hefur verið grafinn niður í
götur Galway þar sem hann mun
tengjast ljósleiðarakerfi til Dublin,
höfuðborgar Írlands. Örn segir að
lokahnykkurinn sé eftir. Grafa þarf í
gegnum fjölfarna götu, Dublin Road,
til að tengja ljósleiðarana saman og
þurfi að loka götunni í hálfan dag á
meðan á framkvæmdum stendur.
Segir hann að leyfi hafi fengist og
verði þetta gert einhvern næstu daga.
Íslandsmegin er unnið að tveimur
sjálfstæðum hringtengingum til að
auka öryggið. Er tenging DANICE
sem kemur á land í Landeyjum uppfærð
um leið. Segir Örn að ef eitthvert
óhapp verði á öðrum hringnum
færist tengingin sjálfkrafa yfir á hinn.
Annar hringurinn er um Suðurnes
þar sem virkjanir og gagnaver tengjast.
Hin hringtengingin er um Suðurland.
Báðir hringirnir hafa snertingu
við Reykjavík. Lagning ljósleiðaranna
um Suðurnes er langt komin,
sömuleiðis um Suðurland.Um10
kílómetra kafli er þó eftir í Þykkvabæ
þar sem nokkrir landeigendur hafa
meinað Ljósleiðaranum ehf., sem
leggur ljósleiðara frá Þorlákshöfn til
Landeyja, að fara um land sitt. Fjarskiptastofa
hefur nú úrskurðað að
Ljósleiðarinn eigi rétt til aðgangs að
landi til að leggja strenginn en ekki
endilega á þeim kjörum sem landeigendum
hefur verið boðið upp á.

Hökt í aðfangakeðjunni
Vegna erfiðleika í aðfangakeðju
heimsins í kjölfar kórónuveirufaraldurs
hafa orðið seinkanir í afhendingu
á búnaði sem nauðsynlegur
er til að reka sæstrenginn. Það hefur
orðið til þess Farice getur ekki hafið
sölu á nýja strenginn fyrr en 1. mars,
tveimur mánuðum síðar en áformað
var. Þrátt fyrir það er stefnt að opnunarhátíð
í Galway undir lok október
með þátttöku ráðherra frá Íslandi og
Írlandi.
Annars segir Örn að framkvæmdirnar
í heild hafi gengið vel. Lagning
sæstrengsins hafi gengið nánast alveg
eins og áætlað var. Vinnunni hafi
aðeins seinkað um 2-3 daga vegna
veðurs. Leyfismálin hafi gengið upp.
Þá stenst kostnaðaráætlun. Kostnaður
er áætlaður um 50 milljónir evra
sem svarar til um 7 milljarða króna,
miðað við gengi evrunnar nú.

Ný viðskiptatækifæri
Íslensku fjarskiptafélögin og
gagnaverin eru helstu kaupendur
þjónustu ÍRISar, eins og á annarri
þjónustu Farice. Öryggi tengingar
landsins tífaldast með fjölgun sæstrengja
úr tveimur í þrjá og segir
Örn að það skipti miklu máli fyrir
landið en einnig gagnaver sem fyrir
eru og geti dregið fleiri að.
Mörg gagnaver eru á Írlandi en
ekki miklir möguleikar til vaxtar á
meðan orkan þar er fokdýr og af
skornum skammti. Örn segir að viðskiptatækifæri
kunni að felast í því
fyrir gagnaver á Írlandi að geta
stækkað á Íslandi. Löndin gætu með
því hjálpað hvort öðru að vaxa með
þessari góðu tengingu.
Spurður að því hversu lengi nýi
strengurinn muni duga segir Örn að
svo virðist sem hægst hafi á aukningu
internetsins hjá Íslendingum, eins og
öðrum þróuðum þjóðum. Íslendingar
muni því seint fylla strenginn einir.
Sú spurning ráðist meira af því
hversu mikil uppbygging verður hér í
gagnaverum. Telur hann eðilegt að
hann dugi í 15 til 25 ár.

Huga að nýjum streng
„Við þurfum að fara að huga að
lagningu næsta strengs. FARICE-1
verður 25 ára undir lok áratugarins.
Mér sýnist á vexti umferðar að við
þurfum að huga að endurnýjun
hans,“ segir Örn en undirbúningur
fyrir lagningu sæstrengs tekur langan
tíma. Tekur hann fram að FARICE-
1 sem liggur frá Seyðisfirði til
Danmerkur með tengingu til Færeyja
sé vel hannaður strengur sem
hafi reynst áreiðanlegur.
Spurður um staðsetningu nýs
strengs segir Örn að gott væri að
leggja hann frá Austfjörðum, til að
dreifa jarðfræðiáhættu, og eins vilji
menn síður leggja strengi þvert á
strengi sem fyrir eru. Þess vegna
segir hann að Danmörk eða suðurhluti
Noregs komi vel til greina.
Nefnir hann svæðið norður af Esbjerg
í því sambandi. Þar er að
verða miðstöð sæstrengja og fjöldi
gagnavera að rísa. Þá séu betri
ljósleiðarakerfi á Norðurlöndunum,
einkum Danmörku, en í Skotlandi
þar sem FARICE-1 kemur í land í
dag.