Nýjar framhaldstengingar og nýr afhendingarstaður þjónustu
Frá árinu 2006 hafa landleiðir frá landtökustöð FARICE-1 sæstrengsins (2004) í Skotlandi til London að mestu verið tvöfaldar til afhendingarstaðar í Telehouse London. Þessar landleiðir innan Bretlands hafa um langa hríð verið veikustu hlekkir fjarskiptakerfis Farice ehf hvað varðar uppitíma jafnvel þótt tveir leiðir séu í boði mestan hluta leiðarinnar. Farice hefur nú náð samningum við fjarskiptafyrirtækið BT Wholesale um að tengja frá landttökustöð til afhendingarstaða. Um er að ræða tvær nýjar leiðir sem eru um 1700 km hver. Hafa fyrstu sambönd BT verið teknar í notkun og getur Farice nú boðið fjórar mismunandi leiðir til London sem á að tryggja mun betra öryggi á þessari mikilvægu leið. Hinir nýju samningar eru einnig hagstæðari en þeir sem fyrir voru sem bæði á að skila sér í framtíðinni til neytenda á Íslandi ásamt því að auka samkeppnishæfni Íslands sem gagnaveralands. Samningarnir nýju hafa gert Farice kleyft að selja gagnaveraviðskiptavinum 100 gigabita (Gb/s) sambönd sem eru stærstu sambönd sem eru á markaðnum í dag. Hafa þegar verið undirritaðir samningar um slíkt og koma til afhendingar ágúst.
Fram til þessa hefur einnig verið bara einn afhendingarstaður (LN1) í Bretlandi, Telehouse við Corander Avenue Docklands, fyrir FARICE-1 sæstrenginn. Telehouse er elsta fjarskiptahótel í Bretlandi og ákaflega mikilvægt sem slíkt. Mikilvægi þess getur einnig verið áhætta út af fyrir sig. Til að dreifa þessari áhættu hefur Farice tekið í notkun nýjan afhendingarstað (LN2) í Slough, sem eru vestur af London ekki langt frá Heathrow flugvelli. Hýsingaraðilinn er Equinix sem er eitt stærsta hýsingarfyrirtæki heims. Netkerfi Farice er síðan tengt mili Equinix og Telehouse eins og myndin sýnir.
Netkerfi Farice með helstu afhendingarstöðum. Myndin sýnir þrjár af fjórum leiðum í Bretland
Í Slough hefur verið að byggjast upp gagnveraþyrping undanfarin ár og því áhugavert fyrir viðskiptavini Farice að eiga þess kost að geta tengst beint þangað án þess að fara í gegnum London. Vonir standa til þess að íslenskir viðskiptavinir Farice nýti sér þennan nýja möguleika í framtíðinni og sjái sér hag í því að auka áreiðanleika síns netkerfis sem gæti komið íslenskum neytendum og samfélagi til góða.
Upplýsingar veitir
Örn Orrason, S 8205006