Nýlega lauk botnrannsóknum fyrir hinn nýja sæstreng ÍRIS þegar könnunarskipið Ridley Thomas kom í land í Reykjavíkurhöfn þann 21. ágúst.  Ridley Thomas hefur í samtals 12 vikur unnið í seinni hluta könnunar vegna leiðarvals strengsins og var nú sjávarbotninn milli landtökustaða á Íslandi og að landhelgi Írlands kannaður. Það var áskorun að manna skipið með fjölþjóðlegri áhöfn sérfræðinga á tímum Covid-19 þar sem ítrustu sóttvarna þarf að gæta en vel tókst til og engin smit hafa komið upp meðal hinna 30 starfsmanna í skipinu.

Vel hefur verið vandað til vals á landtökustað á Íslandi og margir valkostir skoðaðir á suðvesturhorni landsins. Mikilvægt er staðurinn sé sem öruggastur  og með nægilega fjarlægð frá öðrum strengjum Farice, ekki síst með tilliti til sameiginlegrar náttúruvár. Mikilvægt er að leið strengsins í sjó gefi kost á sem bestri plægingu  í landgrunnið til að verja hann fyrir mögulegu hnjaski. Mjög góð leið hefur fundist inn í Þorlákshöfn þar sem fyrirhugað er að nema land haustið 2022.   Strengurinn er framleiddur af bandaríska fyrirtækinu Subcom og er framleiðsla hans komin vel á veg og mun standa fram á næsta vor.  Lagning strengsins verður sumarið 2022 og lýkur framkvæmdum í september það ár. Prófanir verða fram eftir haustinu 2022 á kerfinu sem má vænta að geti farið að þjóna samfélaginu um áramótin 2022/2023.  ÍRIS, sem er 1750 km langur strengur,  mun styrkja fjarskiptainnviði Íslands verulega hvað varðar öryggi og styttir að auki fjarlægð til Bretlandseyja.

Forsvarsmenn Farice. Frá vinstri : Örn Jónsson, Þorvarður Sveinsson og Örn Orrason

 

Rannsóknarskipið Ridley Thomas suður af Þorlákshöfn í ágúst 2021