14.9.2020 – Bein tenging við Írland árið 2022

Hafin er verkleg rannsókn á sjávarbotni fyrir nýjan fjarskiptasæstreng (IRIS) frá Galway á Írlandi til Íslands á vegum Farice. Þar með er mikilvægur áfangi hafinn við undirbúning á styrkingu fjarskipta milli Íslands og útlanda. Nýr strengur er til þess fallinn að auka öryggi í fjarskiptasamböndum við útlönd, bæði fyrir fyrirtæki og heimili, auk þess sem hann er forsenda fyrir áframhaldandi kröftuga uppbyggingu gagnaveraiðnaðar og annarrar starfsemi í tengslum við m.a. fjórðu iðnbyltinguna.

Farice hefur frá ársbyrjun 2019 unnið að undirbúningi fyrir fjarskiptasjóð fyrir lagningu á nýjum fjarskiptasæstreng milli Íslands og Evrópu, á grundvelli stefnu stjórnvalda í fjarskiptum. Vinnan hefur skilað tillögu að staðarvali fyrir landtöku í Evrópu sem er í Galway á vesturströnd Írlands. Könnunin sem nú er hafin er hluti af þeirri undirbúningsvinnu og mun ná frá Galway út að mörkum landhelgi Írlands.

Landtaka á Írlandi hefur að mati Farice marga góða kosti. Tiltölulega stutt er milli Íslands og Írlands, góðar tengingar liggja frá Írlandi bæði áfram til meginlands Evrópu og ekki síður yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna. Loks er umfangsmikil starfsemi gagnvera á Írlandi og nýr fjarskiptasæstrengur gæti opnað á áhugaverða samstarfsmöguleika milli íslenskra og írskra gagnavera.

Lendingarstaður strengsins á Íslandi er áformaður á Reykjanesi og er undirbúningsvinna við val á endanlegum landtökustað í gangi.

Gert er ráð fyrir að nýr fjarskiptasæstrengur geti verið tekinn í notkun um það bil tveimur árum eftir að ákvörðun um framhald verkefnisins og fjármögnun til lagningar strengsins liggur fyrir samanber tilkynning frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá 11. september 2020.

Farice á og rekur í dag tvo fjarskiptaæstrengi til Evrópu. Þeir hafa reynst vel og bilanir síðustu ár fátíðar. Kröfur samfélagsins til fjarskiptatenginga hafa aukist mjög. Með nýjum streng til Írlands munu þannig þrír nútíma fjarskiptasæstrengir tengja landið við Evrópu. Þannig mun nýr strengur styrkja innviði og auka fjarskiptaöryggi sem lífsgæði í nútímasamfélag byggja á samhliða því að auka samkeppnishæfni fyrir íslenskt atvinnulíf og styðja enn frekar við vaxandi gagnaversiðnað á Íslandi

Nánari upplýsingar veitir

Þorvarður Sveinsson framkvæmdastjóri Farice

[email protected] / S: 6699222

(PDF skjal) Frettatilkynning-Farice-IRIS-14.09.2020-